top of page

                           

 Vefefni um kennsluaðferðir leiklistar

 

Mikið er um góðar bækur sem fjalla um leiklist í kennslu en á netinu er einnig hægt að finna mikið af efni. Verkfærin eru því til staðar fyrir þá kennara sem vilja kynna sér og prófa kennsluaðferðir leiklistar í eigin kennslu.

 

 

Á vef Námsgagnastofnunar má finna vefefni til að nýta á fjölbreyttan hátt bókina Leiklist í kennslu  og leiklistarsöguvef sem nýtist kennurum á unglingastigi og í framhaldsskólum, fjallað er um leiklist og dans auk þess sem sérstök umfjöllun er um Ísland í hverjum kafla. Á síðu Námsgagnastofnunar má einnig finna vefinn leikritasmiðjan sem er leikritavefur með 10 leikrit fyrir öll skólastig grunnskóla. Sjá nánar á http://nams.is 

 

 

Á leikjavef Ingvars Sigurgeirssonar er að finna ýmsa námsleiki fyrir alla aldurshópa og ýmsar hugmyndir að leikjum og leiklist. Sjá nánar á www. leikjavefurinn.is.

 

 

Á vef Þjóðleikhússins má bæði finna leiklistaræfingar, upphitunaræfingar og fleira: http://www.leikhusid.is/bak-vid-tjoldin/thjodleikur/leiklistaraefingar/gagnlegar-baekur-um-leiklistarkennslu.

 

 

Vefsíðan www.leikumaflist.is er vefsíða með kennsluefni sem hægt er að nota á á skólastigunum leikskóla og grunnskóla.

 

 

Einnig er hægt að kynna sér FlÍSS – Félag um leiklist í skólastarfi á síðunni www.fliss.is.

 

 

Til að finna meira efni á netinu má prófa að setja í leitarvélar leitarorðin leiklist í kennslu, kennsluaðferðir leiklistar, drama teaching og ways of teaching drama svo einhver dæmi séu tekin.

 

 

 


                  Nokkrar handbækur um kennsluaðferðir leiklistar

 

Þetta er langt í frá tæmandi listi yfir þann fjölda bóka sem gefinn hefur verið út um leiklist í kennslu en þessar bækur hef ég kynnt mér og get mælt með þeim öllum fyrir þá kennara sem vilja kynna sér efnið nánar. Fyrir þá sem vilja leita ennfremur að bókum og efni á netinu má t.d. leita að leiklist í kennslu eða á ensku teaching drama.

 

Fyrst koma íslenskar bækur í tímaröð, þær nýjustu fyrst, og svo koma bækur á ensku í tímaröð.

 

 

Leikið með listina - æfingarbók fyrir leiklistarkennara.

 

Þessi bók kom frá Rannveigu Björk Þorkelsdóttur árið 2012. Bókin er hugsuð fyrir kennara sem hafa áhuga á að kenna leiklist sem listgrein, hægt er að nota bókina á hvaða aldursstigi sem er þar sem um samfellda kennslu er að ræða. Byrjað er á grunnnámsskeiði í leiklist og svo taka lengri námskeið við þar sem kafað er dýpra í ákveðna flokka eins og líkamstjáningu, spuna og samsettar æfingar, vinnu með grímur og þátttökuleikhús. Hvert námskeið hefst á upphitun, svo kemur meginþema námskeiðsins og í lokin er samantekt. Í bókinni er einnig að finna leikjabanka og eru leikirnir flokkaðir eftir tilgangi. Bókin leggur áherslu á að nemendur geti leikið á óþvingaðan og sannfærandi hátt fyrir framan með aðra, geti á skapandi hátt tekið þátt í fjölbreyttum spunaverkefnum, geti fjallað um og metið eigin frammistöðu og annarra og margt fleira. Þessi bók er vel til þess fallin að gefa áhugasömum kennurum verkfæri og hugmyndir til að hefjast handa við að kenna leiklist og nota þessar aðferðir jafnvel í annarri kennslu sinni.

 

 

 

Hagnýt leiklist – handbók kennara:

 

Handbókin er frá Ásu Helgu Ragnarsdóttur og Rannveigu Björk Þorkelsdóttur og kom út 2012. Í þessari handbók og kennslumyndbandi sem henni fylgir er að finna þrjú heildstæð kennsluverkefni fyrir hvert skólastig en best er að raða saman nokkrum kennsluaðferðum leiklistar þannig að úr verði heildstætt ferli. Í bókinni er greint frá fleiri kennsluaðferðum en í myndbandinu. Unnið er með Ástarsögu úr fjöllunum eftir Guðrúnu Helgadóttur á yngsta stigi, Snorra sögu eftir Þórarinn Eldjárn á miðstigi og Kjalnesinga sögu á elsta stigi. Kennsluaðferðirnar má nýta með nánast hvaða námsefni er og vonuðust höfundar með útgáfu efnisins til að það yrði kennurum hvatning til að nota aðferðir leiklistar í kennslu.

 

 

 

Leikur, tjáning, sköpun

 

Þessi bók nýtist bæði sem handbók fyrir kennara sem vilja prófa og kynna sér leiklistarkennslu sem og hugmyndabanki í kennslunni. Í bókinni er að finna skipulag leiklistarkennslu á unglingastigi. Hún kemur frá Þóreyju Sigþórsdóttur og kom út 2009. Önninni er skipt í þrjá hluta og skiptist í grunn og hugmynd að verki. Í miðhlutanum eru spunaæfingar og safnað í sarp fyrir leiksýningu. Að lokum er leikrit æft og sýning fer fram. Auðvelt er að aðlaga þetta skipulag að styttri eða lengri námskeiðum og einnig er hægt að aðlaga þetta að yngri skólastigum. Í bókinni er einnig sérstakur kafli um raddbeitingu.

 

 

 

Hljóðleikhúsið, Búum til sögu, Hlustum á sögu:

 

Þessi bók er eftir Rannveigu Björk Þorkelsdóttur og kom út 2009. Með henni þjálfast nemendur í að kanna ítarlega hjóðheiminn, rannsaka, flokka, velja og hafa stjórn á hljóðum frá mismunandi hljóðgjöfum. Í bókinni eru fjórar sögur ásamt kennsluverkefnum. og kennsluleiðbeiningar með fimm þjóðsögum sem eru í bókinni. Þessi bók hentar mjög vel í leiklistarkennslu.

 

 

 

Klárari en þú heldur (You´re smarter than you think – A Kid´s Guide to Multiple Intelligences):

 

Bókin kom út í íslenskri þýðingu árið 2005 og er eftir Thomas Armstrong, eins og bókin Fjölgreindirnar í skólastofunni. Hér er áfram fjallað um Fjölgreindakenningu Howard Gardner en bókin er nánast algjörlega nemendamiðuð. Í bókinni eru kynningar á hverri greind fyrir sig og hvernig nemendur geta komist að því hvaða greindir eru sterkastar hjá viðkomandi og ýmsar hugmyndir er að finna í bókinni yfir hvernig hægt er að styrkja veikari greindir sínar. Kennsluaðferðir leiklistar er hægt að nota bæði við að uppgötva greindir sínar, prófa sig áfram með hæfni og þekkingu á fjölbreyttan hátt sem og geta kennsluaðferðir leiklistar gefið nemendurm verkfærin og hugmyndir til að styrkja veikari greindir sínar með ýmisskonar æfingum, spuna, hugarflugsæfingum, paravinnu, samtölum og lengi mætti áfram telja.

 

 

 

Leiklist í kennslu – handbók fyrir kennara.

 

Höfundar eru þær Anna Jeppesen og Ása Helga Ragnarsdóttir og bókin kom út 2004. Höfundar segja að bókinni sé einkum ætlað að vera stuðningur við hugmyndir sem byggja á ákveðinni aðferðafræði og að í henni séu fjölbreyttar leiðbeiningar til að nota markvisst við kennslu. Bókin skiptist kafla um hugmyndafræðina, forsendur, hlutverk og aðferðafræði kennara, fjölbreyttar kennsluaðferðir, hugmyndir um hvernig má raða kennsluaðferðum saman, vangaveltur um leikhús og leiki sem kennslutæki auk þess hvernig hugmynd getur þróast í sýningu, tillögur um þjálfun framsagnar og raddbeitingar auk sérkafla um námsmat. Einnig inniheldur bókin upplýsingar um hugmyndabanka á vef Námsgagnastofnunar auk orðalista sem tengir efni bókar við erlend rit.

 

 

 

Fjölgreindir í skólastofunni (Multiple Intelligences in the Classroom):

 

Þessi bók fjallar ekki beinlínis um kennsluaðferðir leiklistar líkt og Skapandi skólastarf eða Klárari en þú heldur en ég vil þrátt fyrir það hafa þær allar með á listanum og benda þeim sem ekki hafa kynnt sér þær að gera það. Fjölgreindakenning Gardners er mjög áhugaverð og vert að kynna sér innihald hennar ef maður ætlar að fara að nota kennsluaðferðir leiklistar í kennslu. Mjög auðvelt er að tengja fjölgreindirnar og kennsluaðferðir leiklistar. Sem dæmi má nefna eru dæmi í bókinni um hvernig hægt er að þjáfa málgreind með því að tengja orð saman í sögu, hægt er að þjálfa líkams- og hreyfi/samskiptagreind með því að leika söguna og leggja jafnvel áherslu á ákveðið orð og ákveðna hreyfingu og svona mætti lengi telja upp dæmi. Fjölgreindakenningin og kennsluaðferðir leiklistar eiga heilmikið sameiginlegt sem og aðferðir, samvinnu, fjölbreytt námsmat, fjölbreytta framsetningu hæfni og þekkingar og áfram mætti lengi telja. Fjölgreindakenningin er hugarfóstur Howard Gardner en bókin er eftir Thomas Armstrong og kom út 2000 en var gefin út í íslenskri þýðingu 2001.

 

 

 

Skapandi skólastarf:

 

Þrátt fyrir að þessi bók fjalli um þemavinnu en ekki beint kennsluaðferðir leiklistar þá vil ég hafa hana hér með á listanum þar sem hún tekur til skapandi skólastarfs og hvað er leiklist annað en sköpun? Þessi bók er mjög áhugaverð og gott að nýta hana þegar t.d. verið er að nota kennsluaðferðir leiklistar hvort sem er í hópavinnu, þemanámi eða í samþættingu námsgreina. Bókin kom út 1996 og er eftir Lilju M. Jónsdóttur.

 

 

 

Mál og túlkun – handbók kennara.

 

Þessi bók kom út 1994 frá Önnu Jeppesen. Þessi bók er hugsuð sem handbók og leiðbeiningar fyrir kennara um leikræna tjáningu og leiklist og hvernig megi nýta í kennslu. Bókin getur nýst kennurum á öllum grunnskólastigum en dæmin í bókinni eru tekin úr kennslu 8 og 12 ára barna. Auðvelt er að aðlaga efnið bæði að aldurshópum og umfjöllunarefnum. Í bókinni er farið í sögu og þróun leikrænnar tjáningar, fjallað um helstu aðferðir sem leikræn tjáning og leiklist byggir á og hvernig þær aðferðir geta tengst inn í skólastarfið. Bókin inniheldur ennfremur hugmyndir fyrir kennara um hvernig samþætta megi ýmsar námsgreinar með því að nota hugmyndafræði og aðferðir leikrænnar tjáningar og leiklistar. Einnig er í bókinni að finna útfærslu á tvenns konar þemaverkefnum sem unnin voru með annars vegar 8 ára nemendum og hins vegar 12 ára nemendum. Þessi verkefni geta kennarar aðlagað sínum nemendahópum auðveldlega. Þessari bók er ætlað að vera aðgengilegt þeim sem vilja vinna með leikræna tjáningu og leiklist og er einnig hugsuð sem viðbót fyrir þá sem eru nú þegar að nýta sér þessar aðferðir leiklistar t.d. í grunnskólakennslu.

 

 

 

Structuring Drama Work.

 

Þessi bók er eftir Jonothan Neelands og Tony Goode og kom út 1992. Þessi bók var endurútgefin 2015 og inniheldur 100 hugmyndir og aðferðir leiklistar sem hægt er að nýta í kennslu. Auðvelt er að aðlaga hugmyndir að skólastigum og samsetningu námshópa. Í bókinni eru skýrar og góðar lýsingar á bæði aðferðunum og hverju þeim er ætlað að skila í kennslunni. Þessari bók er ætlað að vera uppspretta hugmynda og áhugakveikja fyrir þá sem vilja nýta sér og kynna sér þessar aðferðir. Uppsetning og skipulag bókarinnar er mjög gott og auðveldar kennurum mikið verk í sambandi við skipulagningu og það að koma sjálfur upp með hugmyndir. Bókin inniheldur svo margar og margvíslegar hugmyndir að það er nánast ómögulegt að kennarar finni ekki eitthvað sem hentar og þeir geti á einn eða annan hátt nýtt sér í kennslunni standi vilji þeirra á annað borð til þess að koma þessum aðferðum inn í sína kennslu.

 

 

 

Starting Drama Teaching.

 

Þessi bók kom út 1994 og er eftir Mike Fleming, hún var endurútgefin núna síðast árið 2013. Þessi bók hentar mjög vel kennurum sem eru alls óreyndir eða með litla reynslu í að nota leiklist í kennslu. Hún inniheldur mörg mjög skýr og góð dæmi um æfingar og hvernig hægt sé að nota leiklist í kennslu í mismunandi námsgreinum og með mismunandi aldurshópum. Hún inniheldur fjölmargar skemmtilegar æfingar og námsleiki auk góðra upplýsinga um hvernig gott sé að skipuleggja leiklistarkennslu, halda utan um hana með stjórn og aga auk námsmats. Hver kafli byrjar á hagnýtum hugmyndum og dæmum um sértækar æfingar.

 

 

 

Beginning Drama 4-11.

 

Höfundar þessarar bókar eru Miles Tandy og Joe Winston og hún kom út 2001. Þessi bók er mjög skemmtileg og fræðandi ásamt því að innihalda fullt af spennandi hugmyndum um hvernig hægt sé að nota aðferðir leiklistar í kennslu. Bókin inniheldur kynningu á leiklist og hvernig hún getur nýst í kennslu. Hún inniheldur fjöldann allan af einföldum hugmyndum um leiklist og leiki sem hægt er að nota í hvaða námsgrein og tengja í raun hvaða námsefni sem er einnig. Í bókinni er að finna góðar upplýsingar um skipulagningu og stjórnun á kennslunni og aðstæðum. Þessi bók hentar vel fyrir yngri stig grunnskóla. Einnig eru í bókinni góðar upplýsingar um hvernig hægt er að byggja áfram ofan á leiklistina og hvernig megi hátta námsmati.

 

 

 

Impro – Improvisation and the Theatre.

 

Þessi bók er eftir Keith Johnstone, kom út 1979 og var endurútgefin 1981. Í bókinni er að finna fjöldan allan af hagnýtum og fjölbreyttum aðferðum sem kennarar og aðrir geta nýtt sér. Bókinni er ætlað að hvetja kennara og nemendur til að skapa eitthvað nýtt og skemmtilegt og uppgötva hluti með því að prófa nýjar kennslu- og námsaðferðir. Bókin inniheldur sértækar aðferðir og æfingar sem eiga að örva frumleika og hugmyndaauðgi fyrst og fremst nemenda en ekki síður leiðbeinandans eða kennarans. Það sem vegur mest í þessari bók er spuninn og hvernig kennsluaðferðina spuna má nota á margvíslegan hátt með margskonar samsetningu námshópa, aldursflokka og námsgreina.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

© 2023 by Art School. Proudly created with Wix.com

  • c-facebook
bottom of page